Gönguleiðaskiltin við Gálgahraun tekin í notkun

Fimmtudaginn 25. ágúst kl. 17.00 voru tvö gönguleiðaskilti afhjúpuð sem sýna gönguleiðir í Gálgahrauni. Annað skiltið er í hraunjaðrinum við Arnarvoginn á mótum Sjálands- og Ásahverfa, en hitt er á móts við Garðastekk neðan við miðjan Álftanesveg.  Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar hélt ræðu og þakkaði m.a. þeim þremur fyrirtækjum sem lögðu fram fjármuni til að þetta væri hægt en það voru Ikea, Íslandsbanki og Marel. Jafnframt þakkaði hann Hraunavinum sem áttu hugmyndina að uppsetningu skiltanna og sáu um ritun texta og sitthvað fleira. Umhverfisnefnd Garðabæjar hafði veg og vanda að vinnslu skiltanna og hafði umsjón með vinnslu þeirra.

Þegar bæjarstjóri hafði lokið máli sínu gekk hann að öðru skiltinu ásamt Júlíu Ingvarsdóttur formanni Umhverfisnefndar Garðabæjar og Pétri Stefánssyni formanni Hraunavina og afhjúpuðu þau í sameiningu skiltið. Júlía og Pétur tóku einnig til máls og lýstu aðdraganda þess að ráðist var í gerð þessara skilta og gat Pétur þess að Hraunavinir vonuðust til þess að fleiri skilti sem vísa á merka staði í bæjarlandinu verði komið fyrir á næstu árum.

Síðan var öllum boðið að þiggja kleinur og kaffi eða appelssínusafa í tilefni dagsins. Mættu um 70 manns til þessarar athafnar og var góður rómur gerður að framtakinu.

Þessu næst var haldið í göngu og var Fógetagötu fylgt að Stóra-Skyggni en þar var vikið af leið og haldið í áttina að Garðastekk og litið á hitt skiltið. Þaðan var gengið í áttina að Lambhúsatjörn og Sakamannastíg fylgt að Litla-Gálga og Gálgaklettum þar sem gerður var stuttur stans. Næst var haldið í áttina að Vatnagörðum og komið við hjá fornu nausti áður en hringnum var lokað. Veðrið var eins og best verður á kosið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *