Starfsskýrsla stjórnar starfsárið 2012-2013

Aðalfundur 2012

Aðalfundur Hraunavina fyrir starfsárið 2011 – 2012 var haldinn í Haukshúsi á Álftanesi, laugardaginn 3. nóvember 2012.

Á fundinum var kjörin stjórn félagsins fyrir næsta starfsár. Þeir Pétur Stefánsson, Ólafur Proppé og Þorsteinn Þorsteinsson drógu sig í hlé úr stjórninni, en Guðfinna Guðmundsdóttir og Reynir Ingibjartsson gáfu áfram kost á sér.

Í stjórn voru kjörin:

Guðfinna Guðmundsdóttir (Hafnarfirði)

Reynir Ingibjartsson (Hafnarfirði)

Eiður Guðnason (Garðabæ)

Ingvar Arnarsson (Garðabæ)

Gunnsteinn Ólafsson (Álftanesi)

Þeir Pétur og Ólafur höfðu setið í stjórninni frá upphafi og Pétur sem formaður. Voru þeim og Þorsteini þökkuð mikil og óeigingjörn störf í þágu félagsins.

Þá var Steinar J. Lúðvíksson kjörin skoðunarmaður reikninga.

Á fundinum flutti Halldór Ásgeirsson, myndlistarmaður afar fróðlegt erindi sem hann kallaði: ,,Kjarval í Gálgahrauni”. Þar fjallaði hann um einstakt samband Jóhannesar Kjarvals og eins bróður hans, Þorsteins Kjarvals, við náttúruna.

Tvær ályktanir voru samþykktar á fundinum. Í annarri var þeim eindregnu tilmælum beint til sameinaðrar sveitarstjórnar eftir sameiningu Álftaness og Garðabæjar, að sem fyrst hefjist vinna við gerð nýs aðalskipulags fyrir sveitarfélagið og öllum framkvæmdum við fyrirhugaðan nýjan Álftanesveg, frestað á meðan.

Í hinni var því harðlega mótmælt við Alþingi Íslendinga að verja af fjárlögum, hundruðum milljóna af skattfé landsmanna í veg sem veldur stórfelldum og óafturkræfum náttúruspjöllum.

Á fundinum voru samþykktar nokkrar breytingar á lögum félagsins svo þau samrýmdust Árósasamningnum, sem Ísland staðfesti árið 2012. Sá samningur styrkir mjög réttarlega stöðu náttúruverndarfélaga eins og Hraunavina.

Þá voru afhent verðlaun í Ljósmyndasamkeppni Hraunavina um myndir úr Gálgahrauni. Um var að ræða þrenn verðlaun sem Gunnsteinn Ólafsson afhenti.

Starfsemi félagsins

Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar þann 7. nóv. skipti stjórn þannig með sér verkum:

Reynir Ingibjartsson, formaður

Gunnsteinn Ólafsson, ritari

Guðfinna Guðmundsdóttir, gjaldkeri

Tilnefndir voru þessir ármenn fyrir næsta starfsár:

Af Álftanesi:

Elín Jóhannesdóttir

Janus Guðlaugsson

Sveinbjörn Baldvinsson

Í Garðabæ:

Eymundur S. Einarsson

Jón Hjaltalín Ólafsson

Ólafur G. Einarsson

Óli Björn Hannesson

Í Hafnarfirði:

Margrét Guðmundsdóttir

Pétur Óskarsson

Sigurður Einarsson

Stjórnin hélt 10 bókaða fundi en síðan voru haldnir nokkrir opnir vinnufundir, oftast í Haukshúsi þar sem mál Álftanesvegar voru rædd. Gekk þessi hópur undir nafninu ,,Byltingarráðið”. Þegar málarekstur hófst vegna Álftanesvegar, voru fundir haldnir hjá lögmönnunum. Einnig var fundað á Súfistanum í Hafnarfirði. Minni og stærri fundir vegna Álftanesvegarins skipta mörgum tugum.

Borgarafundur í Garðabæ

Eitt af fyrstu verkum stjórnarinnar var að standa fyrir borgarafundi um verndun Gálgahrauns í safnaðarheimili Vídalínskirkju, Kirkjuhvoli í Garðabæ. Fundurinn var haldinn fimmtudaginn 29. nóvember og var húsfyllir.

Á fundinum fjallaði Sigmundur Einarsson jarðfræðingur um Búrfellshraun, Ólafur Gíslason listfræðingur um Jóhannes Kjarval og klettinn sem hann kallaði Gálgaklett og Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður og stjórnarmaður Hraunavina um endurbætur á núverandi Álftanesvegi. Hann afhenti síðan vegamálastjóra, forseta bæjarstjórnar og fulltrúa Umhverfisráðuneytis, 3500 undirskriftir fólks sem mótmælti lagningu nýs Álftanesvegar.

Þá samþykkti fundurinn samhljóða, ályktun um frestun áforma um fyrirhugaða vegagerð meðan verið væri að leita annarra leiða um öruggan og endurbættan Álftanesveg. Þá væri nauðsynlegt að gera nýtt aðalskipulag þar sem tekið væri tillit til nútímalegra náttúruverndarsjónarmiða.

Meðal þeirra sem tóku til máls á fundinum var Ómar Ragnarsson sem hafði orð á því, að ef baráttan um Gálgahrau tapaðist í miðju þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu, væri ótrúverðugt að mótmæla á sama tíma, náttúruspjöllum vítt og breitt um landið.

Röggsamur fundarstjóri var Eiður S. Guðnason, fyrrverandi umhverfisráðherra og stjórnarmaður Hraunavina.

Við kynningu á fundinum var gerður vandaður kynningarbæklingur um fundinn og verndun Gálgahrauns. Var honum dreift í hvert hús í Garðabæ. Umsjón með bæklingnum hafði Ingvar Arnarsson, stjórnarmaður Hraunavina. Verkefnið var styrkt af Sælgætisgerðinni Góu.

Málþing um Búrfellshraun

Í framhaldi af hinum öfluga borgarafundi um verndun Gálgahrauns, kviknaði hugmynd um sérstakt málþing um Búrfellshraun, en það er heildarheitið á hraununum sem runnu frá Búrfellsgíg fyrir rúmum 8000 árum. Málið  var rætt við forstjóra Náttúrufræðistofnunnar í Urriðaholti og ákveðið að framkvæma þessa góðu hugmynd. Þá var ákveðið að tileinka málþingið minningu Guðmundar Kjartanssonar, jarðfræðings sem skrifaði merka grein um aldur Búrfellshrauns fyrir rúmum 40 árum.

Hafnarfjarðarbær og Garðabær gerðust síðan aðilar að málþinginu auk Náttúrufræðistofnunnar og Hraunavina sem haldið var í húsakynnum Náttúrufræðistofnunnar, þriðjudaginn 21. maí 2013.

Þetta máþing tókst afar vel og húsfyllir var á staðnum. Erindi fluttu jarðfræðingarnir: Kristján Jónasson, Lovísa Ásbjörnsdóttir og Sigmundur Einarsson, Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri Garðabæjar og Sólveig Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar Kjartanssonar. Einnig flutti Reynir Ingibjartsson samantekt Jónatans Garðarssonar um örnefni.

Málþingsstjóri var Ólafur G. Einarsson, fyrrverandi menntamálaráðherra og fyrsti sveitarstjóri Garðabæjar og fórst það virðulega úr hendi.

Í lokin var svo farið út á Bala fyrir neðan Hrafnistu og þegnar veitingar. Þar féllust bæjarstjórar Hafnarfjarðar og Garðabæjar í faðma og ákváðu að setja við bæjamörkin á Bala, skilti um Búrfellshraun. Það skilti er nú komið og aftur féllust bæjarstjórarnir í faðma.

Baráttan um Álftanesveginn

Strax eftir borgarafundinn í Garðabæ, sendi stjórn Hraunavina bréf til undirbúningsnefndar um sameiningu Garðabæjar og Álftaness og óskaði eftir fundi til að kynna ályktun borgarafundarins. Fundur var svo haldinn með bæjarráðum sveitarfélaganna þann 18. desember. Þetta var kurteislegur fundur, en ekkert kom fram um stefnubreytingu við sameiningu sveitarfélaganna. Þá virtist ekki á dagskrá að endurskoða skipulagsmálin. Nú var kyrrt um sinn.

En í byrjun apríl bárust fréttir af því að Vegagerðin ætlaði að semja við Íslenska aðalverktaka um nýjan Álftanesveg eftir að Loftorka hafði verið dæmd úr leik og kærumálum vísað frá. Formaður Hraunavina átti þann 8. apríl, fund með forsvarsmönnum ÍAV og kynnti andstöðu félagsins við lagningu vegar um ósnortið Gálgahraun.

Þá samþykktu aðalfundir Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands, kröftug mótmæli gegn nýjum Álftanesvegi yfir Gálgahraun. Loks var skorað á Ögmund Jónasson innanríkisráðherra og yfirmann Vegagerðarinnar að skerast í málið og sjáendur eins og Erla Stefánsdóttir og Ragnhildur Jónsdóttir fóru á vettvang og skynjuðu ótta og reiði hjá hinum huldu vættum í hrauninu.

Þann 21. apríl sl. skrifaði Ögmundur Jónasson svo bréf til vegamálastjóra og bæjarstjóra Garðabæjar og mæltist til þess að þeir fari að nýju yfir forsendur fyrir lagningu nýs Álftanesvegar. Ekki verði skrifað undir verksamning á meðan.

Stjórnarmenn Hraunavina fóru svo á fund vegamálastjóra þann 3. maí og ítrekuðu mótmæli félagsins við lagningu vegarins yfir ósnortið Gálgahraun.

Þann 16. maí skiluðu Hreinn vegamálastjóri og Gunnar bæjarstjóri athugasemdum við tilmælum Ögmundar innanríkisráðherra. Fljótt sagt var ekki talin ástæða til að endurskoða eitt eða neitt. Öll leyfi til staðar og grundvöllurinn óbreyttur – aðalskipulag Garðabæjar frá 1997. Ítrekað var að áform um lengingu Vífilsstaðavegar þvert yfir Gálgahraun stæðu óbreytt og sömuleiðis áform um byggingu allt að átta þúsund manna byggðar á Garðaholti. Nýr Álftanesvegur yrði lagður.

Hraunavinir sendu strax bréf þann 21. maí til vegamálastjóra og bæjarstjóra með þeirri tilkynningu að félagið tæki sér tveggja vikna frest til að gera athugasemdir við greinargerð Hreins og Gunnars. Þá var bent á að ekkert hefði verið gert með óskir Hraunavina um samráð og faglega skoðun á núverandi vegstæði Álftanesvegar. Ítrekað var að ekki verði skrifað undir verksamning næstu 2 vikur.

Að morgni 22. maí var þetta bréf til vegamálastjóra, einnig sent Ögmundi Jónassyni en sá dagur var hans síðasti í starfi sem innanríkisráðherra. Var enn óskað eftir því að ráðherrann léti sér ekki athugasemdir vegamálastjóra og bæjarstjóra duga. Ögmundur sendi síðar þennan dag, annað bréf til Hreins og Gunnars og taldi eðlilegt að ráðuneytinu gæfist tími til að fara yfir greinargerð þeirra frá 19. maí sl. Þá ítrekaði Ögmundur nauðsyn þess að ná meiri sátt við málsvara náttúruverndar í þessari deilu.

Formaður Hraunavina sendi svo nýjum innanríkisráðherra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, tölvubréf þann 27. maí og minnti á bréf Ögmundar um nánari skoðun á forsendum nýs Álftanesvegar. Jafnframt var óskað eftir að Hraunavinir gætu kynnt ráðherranum athugasemdir sínar við greinargerð Hreins vegamálastjóra og Gunnars bæjarstjóra.

Ítarlegar athugasemdir stjórnar Hraunavina voru svo sendar vegamálastjóra og bæjarstjóra Garðabæjar þann 3 júní sl. Þar var greinargerð þeirra svarað lið fyrir lið. Enn og aftur var það ítrekað að hætt verði við lagningu nýs Álftanesvegar yfir ósnortið Gálgahraun, en gerðar endurbætur á núverandi vegi.

Stjórn Hraunavina átti svo fund með Hönnu Birnu þann 27. júní sl. ásamt fulltrúum M-listans – Fólksins í bænum. Ekkert kom út úr þeim fundi og fyrirliggjandi að skrifað yrði undir verksamning um Álftanesveginn sem fyrst. Hún hafði hins vegar sett framkvæmdir í bið þar til hún hefði fundað með deiluaðilum.

Dómsmál

Þann 19. nóv. 2012 sendu nokkrir íbúar í Prýðishverfi, kæru til Úrskurðarnefndar umhverfis- og skipulagsmála um það, að framkvæmdaleyfið fyrir lagningu nýs Álftanesvegar, væri útrunnið. Það var Skúli Bjarnason hrl. hjá Málþingi sem kærði fyrir hönd íbúanna.

Úrskurður kom frá nefndinni þann 22. mars og var niðurstaðan sú að kærunni var vísað frá, þar sem íbúarnir væru ekki lögaðilar að málinu og því ekki um lögvarða hagsmuni að ræða.

28. maí 2013 var svo boðað til fundar á skrifstofu Málþings. Þar voru mættir fulltrúar Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands ásamt Hraunavinum og íbúum í Prýðishverfi. Niðurstaðan var að stefna bæri Vegagerðinni, þar sem öll leyfi fyrir fyrirhuguðum Álftanesvegi væru útrunnin.

Stefna á Vegamálastjóra var svo send Héraðsdómi Reykjavíkur, 4. júní sl. af hálfu Málþings og voru stefnendur: Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir. Var þess krafist að útboð fyrirhugaðs Álftanesvegar, 7. ágúst 2012 yrði dæmt ólögmætt. Jafnframt var gengið frá samkomulagi umræddra samtaka auk íbúa í Prýðishverfi um fjármögnun væntanlegs málareksturs. Var opnaður söfnunarreikningur í Landsbankanum í Hafnarfirði í þessu skyni.

Stefnan var svo þingfest í Héraðsdómi 18. júní sl.

Næst gerist það föstudaginn 16. ágúst sl. að Vegagerðin segir að framkvæmdir séu hafnar. Skrifað hafði verið undir verksamning við ÍAV þann 5. júlí. Í viðtali á Stöð 2 segir Kristján Jónsson vélamaður hjá ÍAV að þetta verði ,,örugglega skemmtileg vinna”.

Mánudaginn 19. ágúst var svo haldinn blaðamannafundur í Gálgahrauni sem Skúli Bjarnason stýrði fyrir hönd samtakanna sem stefndu vegamálastjóra út af Álftanesveginum. Þar var vegamálastjóri víttur fyrir að skrifa undir verksamning, hálfum mánuði eftir að honum var stefnt fyrir ólögmætt útboð Álftanesvegar. Með svona valdnýðslu væri réttarríkinu stefnt í voða. Þá var þess krafist að vegamálastjóri stöðvi verkið strax – annars verði að leita leiða tilað knýja hann til þess. Ekki var orðið við því að stöðva verkið.

Þann 26. ágúst var síðan lögð fram lögbannsbeiðni hjá Sýslumanninum í Reykjavík um að verkið verði stöðvað þegar í stað. Beiðnin var lögð fram af Málþingi fyrir hönd viðkomandi samtaka.

10. september sl. hafnaði svo Sýslumaðurinn í Reykjavík, lögbannsbeiðninni með þeim rökum að samtökin sem stóðu að lögbannskröfunni, hefðu ekki lögvarða hagsmuni í málinu.

Lögmenn samtakanna, Skúli Bjarnason og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, kærðu strax niðurstöðuna til Héraðsdóms Reykjavíkur. Málið væri prófmál á rétt náttúruverndarsamtaka til að leita réttarúrræða í samræmi við Árósasamninginn og EES-samninginn.

Það var skrítin tilviljun að 10. september var lögð fram hjá Héraðsdómi Reykjavíkur, greinargerð lögmanns Vegagerðarinnar vegna stefnunnar á vegamálstjóra frá 18. júní sl.

Þess var krafist að vísa málinu frá dómi, þar sem ekki væri til að dreifa, lögvörðum hagsmunum hjá stefnendum, náttúruverndarsamtökunum fjórum.

Það var svo sérkennilegt að sjá það í tilkynningu frá Vegagerðinni, að dómsmál hefðu engin áhrif á framkvæmdirnar!

Þegar lögbannsbeiðnin var lögð fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur, var þess jafnframt óskað, að leitað yrði umsagnar EFTA-dómstólsins um lögvarðan rétt umhverfisverndarsamtaka til að leita réttarúrræða.

Héraðsdómur úrskurðaði um þetta þann 7. okt. sl. Niðurstaðan var að hafna beiðninni með þeim rökum að lögbann krefðist hraðrar málsmeðferðar og umsögn frá EFTA-dómstólnum gæti tafið málið.

Þessi úrskurður Héraðsdóms var síðan kærður til Hæstaréttar og nú er beiðið niðurstöðu hans.

Baráttan í hrauninu

Þegar ljóst var að fljótlega hæfust framkvæmdir við Álftanesveginn í sjálfu Gálgahrauninu, var farið að undirbúa að verja hraunið. En alvara málsins birtist föstudaginn 13. september þegar grafa var komin að verki í hraunjaðrinum við Garðastekk. Óbætanleg náttúruspjöll voru unnin strax.

Boðað hafði verið til mótmælagöngu yfir Gálgahraun sunnudaginn 15. sept, degi fyrir Dag íslenskrar náttúru og afmælisdag Ómars Ragnarssonar. Mikill fjöldi tók þátt í göngunni með græna fána í hönd. Ómar mætti svo snemma morguns við Gálgahraunið á afmælisdeginum 16. sept. Vaktin við hraunið var hafin. Fyrsti átakadagurinn var svo daginn eftir þegar gröfurnar voru við hraunjaðarinn. Fólk sem hafði skráð sig sem sjálfboðaliða til að verja hraunið var nú kallað út. Þann 18. sept. settist hópur framan við gröfurnar sem stefndu upp á hraunbrúnina.

Eftir samningafund var sæst á að verktakinn myndi næstu daga vinna í vegstæðinu utan við Gálgahraunið. ÍAV vísuðu á Vegagerðinna í þessari deilu og þennan dag var haldinn skyndifundur með fulltrúum hennar. Ekkert kom út úr þeim fundi og óbreytt stefna hjá Vegagerðinni. Og þann 23. sept. voru gröfurnar aftur mættar en voru stöðvaðar af Hraunavinum.

Skúli Bjarnason skrifaði þann 24. sept. opið bréf til innanríkisráðherra og skoraði á hann að skerast í málið og boða deiluaðila til fundar. Þann 27. sept. var svo haldinn fundur hjá Hönnu Birnu með fulltrúum Hraunavina og fleiri samtaka ásamt fulltrúum Vegagerðar og Garðabæjar.

Niðurstaða fundarins var sú að setja á laggirnar starfshóp og leita lausna í deilunni. Aldrei var sá starfshópur myndaður, en rólegt var á ,,vinnusvæðinu” í nokkra daga.

Þann 10. október var svo aftur fundur hjá Vegagerðinni og nú bjuggust menn við einhverjum sáttatillögum. Það fór á annan veg þrátt fyrir orð innanríkisráðherra. Því var lýst yfir af talsmanni Vegagerðarinnar að farið yrði að vinna í hrauninu í næstu viku. Skúli lögmaður sagði þá að hér væri ekkert meira að gera og gekk út ásamt öðrum fulltrúum náttúruverndarsamtaka.

Í kjölfarið var boðað til fundar hjá Hraunavinum og farið að skipuleggja vaktir við hraunjaðarinn. Margrét Víkingsdóttir hjá Landvernd tók að sér að skrá sjálfboðaliða á vaktirnar sem voru þrískiptar frá kl. 7 að morgni til kl. 5 sídegis. Á annað hundrað manns lét skrá sig.

Við hraunjaðarinn voru svo komin upp þrjú skilti til að efla baráttuandann og minna á hverjir stæðu hér að verki. Mikil samstaða var hjá fólki og Ómar Ragnarsson gerði sitt til að halda uppi fjörinu.

Svo rann upp mánudagurinn 21. október. Strax að morgni voru mættir 15 á fyrstu vaktina. Brátt varð ljóst að nú drægi til tíðinda. Fjörutíu tonna jarðýta nálgaðist og lögreglumenn tóku að birtast. Allir sjálfboðaliðar voru kallaðir út, en nú var búið að loka svæðinu. Við tók atburðarás sem enginn gat séð fyrir. Sjálfboðaliðarnir röðuðu sér fyrir framan ýtuna en voru jafnóðum bornir af vinnusvæðinu svokallaða. Að lokum höfðu milli 20-30 manns verið handteknir, enda einir 56 lögreglumenn á svæðinu. Þeir umkringdu jarðýtuna sem síðan hélt upp á hraunið og ruddi braut, alla leið í gegnum það undir lögregluvernd. Þeir sem hættu sér inn á vinnusvæðið svokallaða voru umsvifalaust gripnir. Fólki var síðan troðið í bíla lögreglunnar og bílfarmar fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötuna í Reykjavík. Þar þurfu nokkrir að dúsa í fangaklefa í einhverjar klukkustundir. Svona var meðferðin fyrir það eitt að þykja vænt um landið sitt. En verst var meðferðin á hrauninu.Þau sár verða ekki bætt. Og margir efuðust um að þeir byggju í réttarríki. Lögreglan braut örugglega margar reglur þennan dag. Einn hinna handteknu var Ómar Ragnarsson, en afmælisdagur hans er Dagur íslenskrar náttúru.

Eftirmál

Eftir þessi ósköp var boðað til skyndifundar á Súfistanum í Hafnarfirði. Þar var troðið út úr dyrum. Skúli og Ragnheiður fóru yfir stöðu mála og síðan ákveðið að efna til mótmælafundar við Innanríkisráðuneytið við Sölvhólsgötu í hádeginu daginn eftir, 22. okt. Þar mætti fjöldi manns, Gunnsteinn flutti skörulegt ávarp, ættjarðarsöngvar sungnir og innanríkisráðherra afhent mótmælabréf. Varð skorað á ráðherrann að fresta öllum framkvæmdum þar til niðurstaða Hæstaréttar lægi fyrir um hvort leita beri álits EFTA-dómstólsins. Fundinum stjórnaði Guðmundur Ingi hjá Landvernd. Innanríkisráðherra var hins vegar ekki á staðnum – var að klippa á borða austur á Vopnafirði ásamt vegamálastjóra og fleira virðulegu fólki.

Hanna Birna lét hins vegar hafa það eftir sér í fjölmiðlum þann daginn, að allt hefði farið fram samkvæmt lögum og reglum, enda Vegagerðin í fullum rétti. Óþarfi að bíða eftir dómstólum.

Eftir þessa atburði alla var komið að því að safna fé fyrir öllum sektunum og málarekstrinum. Tónlistarfólk efndi til mikillar tónaveislu í Neskirkju sunnudaginn 27. október og enn var húsfyllir. Öllu stjórnaði Gunnsteinn Ólafsson. Þar var lesin upp stuðningsyfirlýsing frá fjölda náttúruverndarsamtaka.  Hápunkturinn var Gálgarokk í flutningi Ómars og fleiri tónlistarmanna.

Daginn eftir í hádeginu stormaði svo hópur hraunavina til bæjarstjórans í Garðabæ og afhenti honum bréf, þar sem skorað var á bæjarstjórnina, að láta fresta öllum vegaframkvæmdum þar til úrskurður Hæstaréttar lægi fyrir. Efni bréfsins var svo tekið fyrir á bæjarráðsfundi daginn eftir, en niðurstaðan að haldið yrði áfram framkvæmdum en hraunavinum boðið upp á fund. Enginn fundur hefur hins vegar verið haldinn, hvað sem verður.

Að kvöldi mánudagsins 28. október var svo haldinn fundur í húsakynnum Málþings með þeim sem voru handteknir. Hver og einn var svo beðinn að gera grein fyrir handtökunni til lögmannsstofunnar og nú er unnið að framhaldi mála. Ljóst er að handtökurnar í Gálgahrauni eru einhverjar þær umfangsmestu sem átt hafa sér stað hér á landi.

Umfjöllun, greinaskrif og þakkir

 Nánast allir fjölmiðlar hafa fjallað um Álftanesveginn og Gálgahraunið síðustu vikur og mánuði. Reyndar hefur umfjöllunin verið mikil allt starfsárið. Gálgahraunið er sjálfsagt þekktasta einstaka hraunið á Íslandi í dag. Mikill fengur hefur verið að fjölda greina í dagblöðunum. Meðal greinarhöfunda eru: Kristín Helga Gunnarsdóttir, Ragný Þ. Guðjohnsen, Andri Snær Magnason, Skúli Bjarnason, Ómar Ragnarson og Reynir Ingibjartsson. Mest hefur þó munað um Gunnstein Ólafsson og Eið S. Guðnason. Þeir hafa líka verið drjúgir í útvarps- og sjónvarpsmiðlum. Þá má ekki gleyma gildi ljósmynda. Þar munar ekki síst um myndir Ómars Ragnarssonar úr flugi. Þá hefur verið efnt til fjölda gönguferða um Gálgahraun til kynningar á hrauninu og fyrirhuguðum vegaframkvæmdum. Allt hefur það skilað sér.

Gunnsteinn hefur svo haldið út öflugri feisbókarsíðu – Verndum Gálgahraun og ekki má gleyma heimasíðu hraunavina – www.hraunavinir.net sem Jónatan Garðarson hefur haldið utanum. Hann hefur jafnframt passað upp á félagaskrána. Öllu þessu góða fólki er vert að þakka. En sjálfboðaliðarnir í Gálgahrauninu eiga kannski skilið mestu þakkirnar. Þeir bókstaflega lögðu líf og limi í hættu fyrir landið undir fótum okkar.

Síðasta verk þeirra var að standa að nýliðnum Kjarvalsdögum en þá var myndlistarfólk hvatt til að koma í Gálgahraun og stunda listsköpun. Það er vandasamt að nefna eitthvert eitt nafn úr þessum hópi en þar hefur Ragnhildur Jónsdóttir verið ódrepandi. Baráttan heldur svo áfram.

Að lokum ber að þakka það góða samstarf sem tekist hefur með Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands og Hraunavinum um málarekstur og réttindabaráttu náttúruverndarsamtaka. Heiðurinn af því öðrum fremur eiga þau Skúli Bjarnason og Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir hjá Máþingi sem með starfi sínu undanfarna mánuði, hafa ekki síst haldið lífi í þessari baráttu. Vonandi mun sú barátta öll að lokum skila okkur góðum skrefum fram á við í verndun náttúrunnar. Einnig ber að þakka traustum hópi og mikilvægum í Prýðishverfinu í Garðabæ, sem lengi hefur staðið vaktina.

Orrustur hafa tapast en við eigum eftir að vinna stríðið – sjáiði til.

Fyrir hönd stjórnar Hraunavina,

Reynir Ingibjartsson.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *