Berjatíð

BerjalyngNú ættu allir Hraunavinir að nýta sér það sem hraunin á höfuðborgarsvæðinu gefa af sér því berjaspretta hefur verið óvenjugóð á þessu hlýja og góða sumri. Ágætis berjalönd eru í Gálgahrauni, víða í Garðahrauni, Stekkjarhrauni, Gráhelluhrauni, Smyrlabúðahrauni, Vífilsstaðahrauni og öðrum hlutum Búrfellshrauns.

Krökt er af krækiberjum í Hraununum sunnan við Hafnarfjörð, einnig í Hvassahrauni og suður með sjó. Þeir sem vilja helst tína bláber ættu að leita þeirra í Almenningi en þar eru víða góðar bláberjabrekkur t.d. í Laufhöfðahrauni og nærri seljunum t.d. í Bringum ofan við Óttarsstaðasel. BerSömu sögu er að segja um landsvæðið milli Reykjanesbrautar og Lónakotssels og Hvassahraunssels.  Þar er líka hægt að rekast á einiber, sem eru að þroskast um þessar mundir.

Þeir sem vilja fara lengra geta leitað berja í Krýsuvíkurlandi en þar er mjög gjöfult krækiberjaland. Hrútaber eru t.d. í Gálgahrauni og Almenningi og víðar. Ekki þarf að leita mjög langt til að komast í gott berjaland. Það eina sem þarf að gera er að leggja af stað með góða öskju, kökubox og lítinn bakpoka til að geyma afurðirnar og nestið. Svo er um að gera að tína eins og kraftar leyfa hvort heldur er með höndunum eða berjatínu. EiniberÞað kostar ekkert  að fara í berjamó en er einstaklega góð heilsurækt og veitir ómælda ánægju. Þetta er skemmtileg iðja og svo styttist í að næsta tímabil taki við þegar haustlitirnir fara að breiðast yfir lyngið, kjarrið og annan hraunagróður.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *